Viðskipti innlent

Mikilvægast að draga úr viðskiptahalla

Skörp lækkun krónunnar kemur sér illa fyrir efnahagslífið og skuldsett heimili að mati Ingimundar Friðrikssonar seðlabankastjóra. Hann telur mikilvægast að draga úr viðskiptahalla til að rétta þjóðarskútuna af.

Krónan hefur fallið hratt undanfarnar vikur og bara frá því á mánudaginn hefur hún fallið um rúm níu prósent. Fyrir rétt rúmum sex mánuðum stóð evran í 88 krónum en er nú 122 krónur. Hefur krónan ekki verið veikari frá því fallið var frá fastgengisstefnunni í mars 2001.

Greiningardeildir bankanna hafa spáð vaxandi verðbólgu vegna þessa og þá er fyrirsjáanlegt að skuldir í erlendum gjaldmiðlum hækki verulega. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri var gestur í hádegisviðtalinu á Stöð tvö í gær. Sagði hann ljóst að krónan hefði fallið mun hraðar en menn gerðu upphaflega ráð fyrir.

Ingimundur segir að gengislækkunin muni hafa slæm áhrif á efnhagslífið og sérstaklega þá sem hafa tekið lán í erlendri mynt. Að mati Ingimundar ríkir þó enn of mikil þensla í efnhagslífinu og ekki þörf á að stjórnvöld beiti sér sérstaklega - meðal annars með stóriðjuframkvæmdum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×