Viðskipti innlent

Stór gjaldþrot fyrirferðarmikil

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Blað númer eitt Lögbirtinga­blaðið kom fyrst út fyrir rétt rúmum hundrað árum, 2. janúar 1908.
Blað númer eitt Lögbirtinga­blaðið kom fyrst út fyrir rétt rúmum hundrað árum, 2. janúar 1908.
Níu gjaldþrot yfir fimmtíu milljónum króna sem auglýst hafa verið í Lögbirtingarblaðinu í þessum mánuði nema alls tæpum 1,2 milljörðum króna. Af þessari upphæð hefur rétt rúmur fimmtungur fengist upp í kröfur og kröfuhafar þar af leiðandi tapað rúmum 902 milljónum króna.

Þó svo að nokkuð mörg stærri gjaldþrotamál hafi raðast inn í Lögbirtingablaðið í þessum mánuði eru þau ekki öll frá sama tíma. Þannig virðist tiltölulega nýlega hafa verið lokið að fullu skiptum í fjórum málum sem Brynjar Níelsson lögmaður sá um, en þau nema samtals tæpum 374 milljónum króna og eru frá árunum 1998 til 2003. Umfangsmest í þeim hópi er 150 milljóna króna gjaldþrot Borgarkaupa, en í þessum málum fékkst ekkert upp í kröfur.

Eftir standa stærri gjaldþrot fyrir­tækja upp á tæpar 774 milljónir króna frá miðju ári 2006 til ársloka 2007. Þar fékkst langmest upp í kröfur í stærsta gjaldþrotinu, en veð voru til fyrir veðkröfum upp á tæpar 226 milljónir í þrotabúi TX dreifingar hf. frá því 2006.

Þar námu heildarkröfur tæpum 397 milljónum króna. Næststærst nýrri málanna er 137 milljóna króna gjaldþrot Hítarness frá því á síðasta ári. Næst kemur gjaldþrot Sliturs ehf, sem áður hét Merking skiltagerð, upp á rúmar 112 milljónir, þá Austurpóls frá því í fyrra upp á rúmar níutíu milljónir, og svo Stúdío Bílar þar sem kröfur námu rúmum 35 milljónum króna, en það félag var tekið til gjaldþrotaskipta síðasta haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×