Viðskipti innlent

Unnið að því að endurskipuleggja rekstur SPRON

Guðmundur Hauksson er forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson er forstjóri SPRON. MYND/GVA

Unnið er að því að endurskipuleggja rekstur SPRON með tilliti til langtímahagsmuna og gjörbreyttu umhverfi fjármálafyrirtækja, segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Þar er bent á að þessar nýju aðstæður hafi neikvæð áhrif á rekstur SPRON. Enn fremur kemur fram að með falli Kaupþings séu forsendur fyrir sameiningu við bankann brostnar.

SPRON segir þó í tilkynningunni að starfsemi fyrirtækisins verði óbreytt og að starfsmenn muni kappkosta að þjónusta viðskiptivini sína. Þá hafi ríkisstjórnin áréttað að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi séu tryggðar að fullu. „Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til," segir í tilkynningunni.

Jóna Ann Pétursdóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá SPRON, segir í samtali við Vísi að ekkert liggi fyrir um uppsagnir á starfsfólki og því geti bankinn ekki tjáð sig um það. Aðspurð hvort SPRON geti starfað áfram við núverandi aðstæður segir Jóna enn fremur að verið sé að gera ráðstafanir til þess að svo megi verða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×