Viðskipti innlent

Krónubréfaeigendur verða skildir eftir á köldum klaka

Seðlabanki Íslands ætlar að loka á útstreymi gjaldeyris varðandi krónubréf sem koma á gjalddaga á næsta ári. Eigendur bréfanna munu því verða skildir eftir á köldum klaka og óvíst hvenær þeir muni losna úr stöðum sínum.

Þetta kom fram á fræðslufundi sem Seðlabankinn hélt í dag til að kynna í hverju aðgerðir hans til að verja gengi krónunnar væru faldar.

Óljós svör voru við spurningum um hvort Seðlabankinn hefði náð samkomulagi við eigendur krónubréfanna. Aðeins var sagt að engar formlegar viðræður hefðu farið fram.

Aðspurðir um hvort þetta myndi ekki þýða að það litla sem eftir er af trúverðugleika landsins í fjármálum myndi ekki hverfa út um gluggan sögðu talsmenn bankans að svo kynni að fara. Þeir hefðu hinsvegar metið það svo að meiri hætta stafaði af algeru hruni krónunnar ef krónubréfaeigendum yrði leyft að losna úr stöðum sínum.

Ætlunin er að leyfa krónubréfaeigendum að losna úr stöðum sínum í áföngum en eftir á að móta það ferli betur.

Útistandandi svonefnd krónubréf eru nú um 300 milljarðar króna. Um helmingur þess er hins vegar ekki ógn við gengi krónunnar, þar sem sá hluti er fjármagnaður með gjaldmiðlaskiptasamningum. Hættan gagnvart genginu er fólgin í þeim hluta bréfanna sem hefur verið tryggður með kaupum á innstæðubréfum Seðlabankans.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×