Viðskipti innlent

Kaupsamingar á fasteignum ekki verið færri í 17 ár

Síðustu vikuna í nóvember voru einungis gerðir 31 kaupsamningur um íbúðarhúsnæði enn samningar hafa ekki verið jafn fáir í einni viku síðan í desember árið 1991.

 

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þsr segir að veltan í síðustu viku hafi numið samtals 984 milljónum kr. sem samsvarar því að hver samningur hafi hljóðað upp á tæplega 32 milljónir kr. að meðaltali.

 

Velta á íbúðamarkaði hefur farið minnkandi frá því að fjármálakreppan braust út hér á landi í byrjun októbermánaðar. Reyndar hefur velta á íbúðamarkaði verið að dragast saman lungann af árinu en fjöldi þinglýstra kaupsamninga á fyrstu átta mánuðum þessa árs var hinn sami og á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

 

Í kjölfar víðtækra aðgerða til varnar íbúðamarkaðinum í sumar tók íbúðamarkaðurinn hinsvegar við sér á nýjan leik og umsvif jukust. Sá bati reyndist hinsvegar skammvinnur og frost virðist vera komið aftur á íbúðamarkaði eins og endurspeglast í minnkandi umsvifum og veltu.

 

Frost er reyndar ekki stærsta ógnin sem íbúðamarkaðurinn stendur frammi fyrir um þessar mundir en greiðsluerfiðleikar heimilanna gætu orðið til þess að þvingaðar sölur gætu aukist sem myndi þrýsta verðinu niður mun hraðar en ella. Það mun hinsvegar velta á viðbrögðum stjórnvalda hversu mikill þrýstingur af þessu tagi mun myndast á íbúðamarkaði. Stjórnvöld hafa nú þegar kynnt aðgerðir sem munu hjálpa fjölskyldum að standa í skilum með lán sín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×