Innlent

Ekki hægt að bera saman Ríkislögreglustjóra og Jóhann R.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að líkja saman þeim breytingum sem orðið hafi á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og þeim sem orðið hafa á embætti Ríkislögreglustjóra í tíð Haraldar Johannesen. Þetta kom fram í Kastljósinu fyrr í kvöld þar sem Björn sat fyrir svörum. Hann sagði einnig að allt tal um að hann hafi lagt Jóhann R. Benediktssoní einelti væru alvarlegar ásakanir sem ekki ættu við rök að styðjast.

Jóhann R. Benediktsson hefur sagt upp störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum í kjölfar ákvörðunar ráðuneytisins að auglýsa stöðu hans lausa til umsóknar. Í Kastljósinu ítrekaði Björn þá afstöðu sína að fyrir ákvörðun sinni væru skýr efnisleg rök. Embættið á Suðurnesjum hefði breyst gríðarlega síðustu ár og meðal annars hefðu launamálin breyst. Í því sambandi benti Björn á að Jóhann sjálfur hafi óskað eftir því við ráðuneytið að kjararáð myndi endurskoða launakjör hans.

Björn sagði að málið snérist ekki um persónu Jóhanns sem hann hefði átt góð samskipti við en ráðherra benti þó á að fjármál embættisins væru ekki í lagi eins og hann hefur áður sagt. Hann sagði einnig að sú staðreynd að þeir Jóhann væru ósammála um framtíðarskipulag embættisins hefði heldur ekkert með það að gera að staðan skyldi auglýst.

Aðspurður hvort ekki hefði þá átt að auglýsa embætti ríkislögreglustjóra að teknu tilliti til þess að það embætti hafi breyst mikið síðustu misseri sagði Björn það alls ósambærilegt mál, engin eðlisbreyting hafi orðið á ríkislögreglustjóraembættinu.

Björn sagðist ennfremur ekki geta svarað því hvernig stæði á því að þrír æðstu yfirmenn lögreglunnar á Suðurnesjum skuli ákveða að fylgja Jóhanni, því yrðu þeir að svara sjálfir. Að lokum sagði ráðherra að búið væri að ganga frá því hverjir muni fylla skörð þeirra sem ákveðið hafa að hætta, en að það verði tilkynnt eftir helgi hverjir það séu. Hann sagði einungis að um öfluga menn sé að ræða sem geti gengið til verka.

Hann sagðist telja að tími núverandi yfirmanna embættisins beinst of mikið að sér og dómsmálaráðuneytinu og að hinir nýju stjórnendur geti því einbeitt sér að innra starfi lögreglunnar á Suðurnesjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×