Innlent

Metnaðarleysi meirihluta borgarstjórnar

Brynja Björg Halldórsdóttir er nýkjörin formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu.
Brynja Björg Halldórsdóttir er nýkjörin formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu.

Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu harma metnaðarleysi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur í leiksskólamálum sem endurspeglast í ákvörðun þeirra um að hefja heimgreiðslur til foreldra barna á biðlista eftir leikskólaplássi.

,,Biðin eftir leikskólaplássi er afleiðing fyrrnefnds metnaðarleysis auk manneklu á leikskólunum sem orsakast af starfskjörum og launum sem eru vart boðleg fyrir jafn mikilvægt starf og um ræðir. Þessi vandi verður ekki leystur með heimagreiðslum, allra síst greiðslum sem eru svo lágar að þær koma á engann hátt í stað tækifæris foreldra að komast aftur út á vinnumarkaðinn," segir í ályktun aðalfundarins.

Félagið segir að reynsla nágrannaþjóða af heimgreiðslum hafi sýnt að þær ýti undir gamaldags hlutverkaskiptingu kynjanna, dragi úr atvinnuþátttöku kvenna og hafi slæm áhrif á innflytjendur.

Stofnfundur Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu var haldinn síðastliðinn laugardag, þann 27. september. Fundurinn var jafnframt fyrsti aðalfundur félagsins.

Starfssvæði hins nýja félags nær til Reykjarvíkurkjördæmanna tveggja auk Suðvesturkjördæmis. Félög Ungra vinstri grænna sem áður störfuðu á þessu svæði eru nú sameinuð í nýju félagi.

Á fundinum var Brynja Björg Halldórsdóttir kjörin formaður en auk hennar voru kjörnir sex aðalmenn í stjórn auk tveggja varamanna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×