Viðskipti innlent

Endurskoða spá um lækkun fasteignaverðs

Greining Glitnis hefur endurskoðað spá sína um lækkun fasteignaverð á árinu. Nú reiknar greiningin með að íbúðaverð muni lækka um 6% yfir þetta ár. Þetta er lítilsháttar breyting frá fyrri spá um þróun íbúðaverðs þar sem gert var ráð fyrir 7% lækkun yfir árið.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að ástæður þess að sýn þeirra á þróun íbúðarmarkaðarins hefur breyst nú eru meðal annars þær breytingar sem hafa orðið á ytri umgjörð markaðarins að undanförnu.

Þá virðist sem sú raunverðslækkun íbúðahúsnæðis sem greining spáði ætli að verða meiri fyrir tilstilli verðbólgu en nafnverðslækkun íbúðahúsnæðis. Reyndar bendir flest til að sú leiðrétting sem mun eiga sér stað á íbúðarmarkaði í þessari niðursveiflu verði að mestu í gegnum mikla verðbólgu fremur en nafnverðslækkun íbúðahúsnæðis.

Engu að síður er um talsverða nafnverðslækkun að ræða, enda er fátt sem styður við íbúðarmarkaðinn um þessar mundir. Reiknar greiningin með að aðstæður verði erfiðar allt fram á næsta ár. Væntingar neytenda um efnahagsástandið eru nú í sögulegu lágmarki, hægt hefur verulega á vexti einkaneyslu, kaupmáttur launa hefur dregist saman og útlit er fyrir aukið atvinnuleysi á seinni hluta ársins.

Þá spilar brottflutningur erlends vinnuafls úr landi og mikið framboð af nýju húsnæði einnig stórt hlutverk í að auka þrýsting til verðlækkunar á íbúðarmarkaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×