Viðskipti innlent

Erfiðleikar Gnúps hækka skuldatryggingaálag ríkisins

Skuldatryggingaálag á skuldbindingar íslenska ríkisins til fimm ára hækkaði mikið í gær og stendur nú í 126,7 punktum. Hæst fór álagið upp í 130 punkta í gær úr 75 punktum daginn áður. Til samanburðar má geta þess að álagið var innan við 20 punkta í október síðastliðnum og á bilinu 5-15 punktar í sumar.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu og þar segir að „Ástæða þessarar miklu hækkunar er að miklu leyti fréttir af fjármögnunarvandræðum fjárfestingafélagsins Gnúps, nú síðast tilkynning þess efnis að félagið hafi náð samkomulagi við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins."

Álagið endurspeglar kostnaðinn við að verja sig gegn þeirri áhættu að ríkissjóður standi ekki við skuldbindingar sínar. Fyrir hvern punkt álags þarf kaupandi skuldatryggingar að greiða 100 kr. til að tryggja skuldabréf fyrir milljón að nafnvirði.

Greining Glitnis segir að tíðindin um erfiðleika Gnúps virðast hafa hrundið af stað vangaveltum um hvernig önnur íslensk fjárfestinga-og fjármálafélög standa nú í kjölfarið á þeim óróa sem einkennt hefur fjármálamarkaði frá ágústbyrjun.

„Óvissan varðandi fjármálafyrirtækin tengist stöðu ríkissjóðs sem að hefur það hlutverk að grípa inn í sem lánveitandi til þrautarvara til að verja stærstu fjármálafyrirtækin greiðslufalli. Greiðsluvandræði vegna óróans eru hins vegar enn sem komið er bundin við tiltölulega smáan hóp fjárfesta og fjárfestingafélaga, og eru ofangreindar vangaveltur til vitnis um hversu viðkvæmur markaðurinn er fyrir öllum tíðindum á óvissutímum líkt og þeim sem nú ríkja," segir í Morgunkorninu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×