Viðskipti innlent

Bankinn gerði tvenn mistök þegar Birna reyndi að kaupa í Glitni

Birna Einarsdóttir.
Birna Einarsdóttir.

Birna Einarsdóttir bankastjóri Nýja Glitnis, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um kaup hennar á hlutabréfum Glitnis sem aldrei voru framkvæmd. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 á mánudag og síðan hafa fleiri miðlar tekið málið upp. Hún segir mistök innan bankans hafa leitt til þess að Kauphöll hafi ekki verið tilkynnt um að ekkert yrði af kaupunum eftir að upp komst um málið innan bankans. Þá hafi nýr stjórnarformaður tekið við og ákveðið að hlutirnir stæðu Birnu ekki lengur til boða.

Í yfirlýsingunni segist Birna hafa fullan skilning á þeirri tortryggni og reiði sem ríki á meðal fólks vegna málsins. Hún segir að málið hafi verið sent til FME til skoðunar og segist hún gera ráð fyrir því að stofnunin líti til þeirra gagna þegar Birna gengst undir hæfismat sem bankastjóri Nýja Glitnis.

Þegar tilkynnt var um kaupin á sínum tíma til Kauphallar eru þau reyndar á nafni Birnu en ekki einkahlutafélags í hennar eigu eins og Birna segir í yfirlýsingunni. Það er einnig ljóst samkvæmt yfirlýsingu Birnu að bankinn virðist tvívegis hafa gert mistök í ferlinu. Í fyrsta lagi þegar kaupin týndust í kerfinu, og í öðru lagi þegar bankinn tilkynnir ekki til Kauphallar að ekkert hafi orðið af kaupunum.

Yfirlýsing Birnu fer hér á eftir í heild sinni:

Vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga um kaup einkahlutafélags í minni eigu á hlutabréfum í Glitni banka hf., sem reyndar aldrei voru framkvæmd, sé ég mig knúna til þess að senda frá mér yfirlýsingu til að upplýsa málið enn frekar.

Ég hef fullan skilning á þeirri tortryggni og reiði sem ríkir meðal fólks. Öll viðskipti af þessu tagi þarf að skoða ofan í kjölinn. Ég harma þá neikvæðu umfjöllun sem hinn Nýi Glitnir hefur orðið fyrir vegna þessa og þau þungu orð sem fallið hafa og snúast um persónu mína.

Atburðarásin

Þann 2. febrúar 2007 tók ég sæti í framkvæmdastjórn Glitnis banka hf. Hluti af kjörum mínum í því sambandi var kaupsamningur um kaup á hlutabréfum í bankanum, eins og tíðkaðist almennt á fjármálamarkaði á þeim tíma. Bankinn bauð mér lán til 5 ára til að fjármagna kaupin. Í samningnum fólst að ef ég hefði hætt störfum fyrir lok samningstíma bar mér að skila bréfunum og það var jafnframt tekið fram að ég myndi ekki njóta hækkunar á verði þeirra.

Ég gerði samning við bankann og tók sæti í framkvæmdastjórn. Ég stóð í þeirri meiningu að þessi viðskipti hefðu gengið í gegn, enda voru þau tilkynnt í Kauphöll. Lánið var svokallað kúlulán og átti ekki að greiðast fyrr en með einni greiðslu þann 29. mars 2012 og þá með áföllnum vöxtum og kostnaði.

Á aðalfundi Glitnis banka hf. miðvikudaginn, 20. febrúar 2008 óskaði ég eftir atkvæðisrétti fyrir félagið mitt. Þá kom í ljós að engin hlutabréf voru skráð á umrætt félag og ég fékk því ekki þann atkvæðisrétt sem ég taldi félaginu bera.

Strax um kvöldið óskaði ég eftir skýringum hjá starfsmönnum bankans. Málið var tekið til skoðunar og farið vandlega yfir alla verkferla. Hin lögfræðilega skýring sem ég fékk var að það hefði verið galli í lánasamningnum, þegar til átti að taka. Viðmið vaxta og verðbóta var ekki sami mánuðurinn og af þeim sökum gat bakvinnsla ekki skráð lánið í kerfin og voru viðskiptin því aldrei kláruð. Mér var tjáð að málið hafi verið fært til bókar hjá regluverði. Bakvinnsla vakti máls á þessu við þann sem ábyrgur var fyrir framkvæmd viðskiptanna. Þrátt fyrir það barst leiðréttur lánasamningur aldrei til bakvinnslu sem gerði það að verkum að viðskiptin gengu aldrei í gegn.

Þegar hér var komið sögu var mér tjáð að allar forsendur fyrir slíkum samningum væru brostnar. Ekki væri vilji innan bankans að standa við upphaflegan samning, enda hafði nýkjörinn stjórnarformaður boðað nýja stefnu varðandi kauprétti og árangurstengdar greiðslur til stjórnenda bankans.

Ég gerði ekki athugasemd við þá niðurstöðu. Í raun þýðir þetta að félag mitt keypti aldrei nein hlutabréf í Glitni hf. þegar upp er staðið. Mér er þó ljóst að það voru mistök bankans að leiðrétta ekki tilkynninguna í Kauphöll.

Ég hef ekkert að fela í þessu máli og upplýsti stjórnarformann bankans um málið áður en starfssamningur var undirritaður. Þá hef ég óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið (FME) að það taki málið til skoðunar. Þegar hafa verið send gögn frá bankanum til FME vegna þessa og ég geri ráð fyrir því að stofnunin líti til þeirra í því hæfismati sem ég mun gangast undir sem bankastjóri Nýja Glitnis.

Engin launung þarf að vera í þessu máli - hvorki af minni hálfu né annarra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×