Viðskipti innlent

Viðskipti með skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga í kauphöllinni

Skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga verða tekin til viðskipta í dag í kauphöllinni.

Tilgangur útgáfunnar er að afla fjár til endurlána til sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra. Heildarútgáfa skuldabréfanna mun nema allt að 15 milljörðum kr. að nafnvirði, en útgefnir nú eru 4,5 milljarðar kr..

Stefna stjórnar er að auka við þessa heimild á næstu árum ef að eftirspurn verður eftir skuldabréfunum.

„Með útgáfu þessara skuldabréfa viljum við bjóða fjárfestum upp á öruggan fjárfestingarkost með góðri langtímaávöxtun og í framhaldinu munum við stækka flokkinn og koma á viðskiptavakt með hann. Seðlabanki Íslands hefur komið til móts við óskir lánasjóðsins um að bréfin verði veðhæf hjá honum, sem er mjög jákvætt og mun styðja við virkni bréfanna á markaði í framtíðinni.

Andvirði skuldabréfanna verður notað til endurlána til sveitarfélaganna til að tryggja áframhaldandi grunnþjónustu þeirra og til að þau hafi fjármagn til nauðsynlegustu framkvæmda sem í gangi eru", segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri lánasjóðsins í tilkynningu um málið.

"Það er okkur mikil ánægja að taka skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga til viðskipta í Kauphöllinni", sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri kauphallarinnar.

"Mikil þörf er á fjármagni út í atvinnulífið. Kauphöllin getur á næstu misserum leikið lykilhlutverk í miðlun þess fjármagns og lagt þannig sitt af mörkum við að glæða hagvöxt á nýjan leik. Væntum við þess að útgáfa Lánasjóðs sveitarfélaga varði þá leið sem fjöldi aðila muni fara á næstunni með það fyrir augum að snúa vörn í sókn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×