Viðskipti innlent

Íbúðaverð lækkar á milli mánaða

Vísitala íbúðaverðs lækkaði í júní um 0,1% milli mánaða. Í Hálf-fimm fréttum Kaupþings segir að þessi lækkun komi í kjölfar hækkunar um hálft prósent í síðasta mánuði en þriggja mánaða breytingin mælist nú neikvæð um 1,2%. Segir að árshækkunin nemi nú einungis 3,2% að nafnverði en náði hæðum í 16,7% í október á síðastliðnu ári.

Raunlækkun fasteigna

Greiningadeild Kaupþings segir að fasteignaverð hafi byrjað að lækka að raunvirði í apríl síðastliðnum. Verð fasteigna hafi því lækkað um 8,4% að raunvirði síðastliðið ár. Þá segir í Hálf-fimm fréttum að Greiningardeild hafi gert ráð fyrir að nafnverð fasteigna taki að lækka á síðari helmingi þessa árs og virðist margt benda til að svo verði.

Aldrei minni velta

Velta á fasteignamarkaði hefur ekki verið minni samkvæmt tölum FMR en þær ná aftur til ársins 2001. Þinglýstir kaupsamningar voru alls 208 talsins á höfuðborgarsvæðinu í júní sem er 80% samdráttur á milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×