Viðskipti innlent

Hvetur fólk til að halda sér fast í efnahagsöldunni

SB skrifar
Björgólfur Guðmundsson ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur við opnun tónlistarhússins.
Björgólfur Guðmundsson ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur við opnun tónlistarhússins.

Björgólfur Guðmundsson bað landsmenn að halda sér fast meðan efnahagsaldan skylli á okkur. Þetta sagði hann í ávarpi af tilefni af opnun Gestastofu Tónlistar og ráðstefnuhúss þar sem gestum gefst færi á að virða fyrir sér byggingu þessa risamannvirkis.

"Tónlistar- og ráðstefnuhúsið verður margslungið líkt og íslensk veðrátta. Eins og við vitum öll þá hvessir hressilega í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Þeir vindar blása líka niður við höfn," sagði Björgólfur.

Hann hvatti fólk til að halda sér fast.

"Meðan efnahagsaldan lemur á okkur af sem mestum krafti verðum við að halda okkur fast, vinna áfram af metnaði og öryggi en fara að öllu með gát. Vonandi harðnar ekki svo á dalnum að við þurfum að breyta áformum okkar hér. Við höldum áfram og siglum af festu inn í framtíðina með það að leiðarljósi að fylla Tónlistarhúsið af fólki og tónum og gerum það í trausti þess að efnahagsvindar breyti ekki áætlunum okkar og beri okkur af leið."

Á myndinni með fréttinni má sjá Björgólf ásamt Þorgerði Katrínu við gluggann sem vísar að hafnarsvæðinu. Glugginn er svo hreinn að halda mætti að þau væru "photoshoppuð" inn á myndina - en svo mun ekki vera.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×