Viðskipti innlent

Eignir lífeyrissjóðanna rýrna að raunvirði

Aukning á hreinni eign lífeyrissjóða hélt ekki í við verðbólgu á tímabilinu frá maílokum 2007 til sama tíma á þessu ári. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis. Greiningadeild Glitnis segir þó að lífeyrissjóðirnir virðist í heildina tekið hafa haldið nokkuð vel sjó í þeim erfiðu markaðsskilyrðum sem hafa verið að undanförnu.

Í nýbirtum tölum Seðlabanka um efnahag lífeyrissjóða kemur fram að hrein eign þeirra í lok maí nam 1.764 milljörðum króna og hafði aukist um 10,6% undangengna tólf mánuði. Verðbólga á Íslandi var hins vegar 12,3% á sama tímabili samkvæmt vísitölu neysluverðs og því minnkaði hrein eign til greiðslu lífeyris að raunvirði um 1,5% á tímabilinu.

Innlend hlutabréfaeign rýrir eignir lífeyrissjóðanna



Greining Glitnis segir að innlend hlutabréfaeign hafi verið sá hluti eignasafns lífeyrissjóðanna sem dregið hafi niður heildarávöxtun þeirra, ef marka megi yfirlit Seðlabankans. Að nafnvirði hafi eign lífeyrissjóðakerfisins í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum minnkað um rúm 35% á ofangreindu tímabili, en til samanburðar þá hafi OMXI15 hlutabréfavísitalan lækkað um ríflega 40% á sama tíma. Þróun á erlendum eignum sjóðanna hafi verið hagstæðari, en þeir hafi aukist um rúm 22% milli maíloka 2007 og 2008. Greining Glitnis segir að gengisþróun krónu leiki væntanlega stórt hlutverk, en krónan hafi veikst um fjórðung á tímabilinu. Á móti vegi væntanlega að erlend hlutabréf hafi fallið í verði líkt og innlend.

Skuldabréfaeign arðsöm



Greining Glitnis segir jafnframt að sjóðfélagalán hafi aukist mikið hjá lífeyrissjóðunum undanfarið. Í lok maí hafi útistandandi lán til sjóðfélaga numið 145 milljörðum króna og hafi þau aukist um 28% frá sama tíma árið áður. Þar sem lánin séu verðtryggð skýrist hluti aukningarinnar af verðbólgu á tímabilinu, en þrátt fyrir það sé ljóst af þessum tölum að talsverð aukning hafi verið í útlánum á þessum tíma, enda kjör lífeyrissjóðanna á húsnæðislánum í mörgum tilfellum fremur hagstæð. Auk sjóðfélagalána sé eign lífeyrissjóðanna í verðtryggðum skuldabréfum veruleg, en í heild hafi verið 19% aukning á eign sjóðanna í innlendum skuldabréfum og verðbréfasjóðum.

Mikill raunvöxtur undanfarinn áratug



Greining Glitnis segir að lífeyrissjóðirnir hafi verið allvel varðir fyrir þeim sviptivindum sem hafa leikið um hagkerfið undanfarið og orsakað fall krónu og verðbólguskot. Einnig þurfi að hafa í huga að þótt hrein eign þeirra hafi skroppið lítillega saman að raunvirði á síðustu mánuðum hafi eignir þerra aukist að raungildi um 12% á ári undanfarinn áratug, bæði vegna þess að iðgjöld hafi jafnan verið hærri en lífeyrisgreiðslur en ekki síður sakir þess að ávöxtun eigna þeirra hafi verið með ágætum stærstan hluta þessa tímabils.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×