Erlent

Níu látnir í skotárás í Finnlandi - Byssumaðurinn á lífi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Matti Lehto, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Tampere, sagði í samtali við Vísi fyrir nokkrum mínútum að maðurinn sem skaut á samnemendur sína í skólanum í Kauhajoki sé kominn á sjúkrahúsið og sé á lífi. Hann er þó í bráðri lífshættu eftir að hann gerði tilraun til að stytta sér aldur í kjölfar ódæðisins.

 

Finnska ríkisstjórnin segir að níu manns hafi látist í árásinni og að tveir hafi særst. Eftir því sem haft er eftir rektor skólans í Huvudstadbladet kom maðurinn, sem er um tvítugt, inn í skólann í morgun með skotvopn og hóf að skjóta að tuttugu manna hópi. Grunur leikur á að hann hafi einnig verið með sprengiefni því hann var með tösku. Hann mun hafa verið grímuklæddur.

 

Maðurinn er svo sagður hafa gengið um skólann en skaut þó ekki á fleiri. Hann mun hins vegar hafa skotið á lögreglu. Um 200 manns voru í skólanum þegar maðurinn kom þangað og þiggja þeir nú áfallahjálp.

 

Eldur kom upp í skólanum og þurfti slökkvilið að ráða niðurlögum hans eftir að umsátursástandi lauk. Þá er maðurinn sagður hafa skotið á lögreglu þegar hún kom á vettvang.

 

 

 

 


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×