Viðskipti innlent

Úkraínskur banki í eigu Íslendinga semur við þróunarbanka Evrópu

Frá undirritun samnings Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og Bank Lviv.
Frá undirritun samnings Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og Bank Lviv.

Bank Lviv, úkraínskur banki sem meðal annars er í eigu íslenska félagsins MP fjárfestingarbanka, hefur undirritað samstarfssamning við Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.

Í tilkynningu frá MP fjárfestingarbanka segir að samstarfið felist í þjálfun starfsfólks Bank Lviv og endurfjármögnun útlána til smárra og meðalstórra fyrirtækja og svonefndra örlána. Þróunarbankinn er stærsti erlendi fjárfestirinn í Úkraínu. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var viðstaddur undirritunina sem fór fram í útibúi Bank Lviv í Kænugarði og ávarpaði viðstadda.

MP Fjárfestingarbanki hefur á undanförnum árum haslað sér völl á úkraínskum fjármálamarkaði. Segir fjárfestingarbankinn að rekstur Bank Lviv hafi gengið mjög vel og eftir að íslenskir fjárfestar tóku við stjórn bankans í ársbyrjun 2006 hefur hann stækkað mikið, en útibúin eru orðin 21 talsins, staðsett víðsvegar um landið.

Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP Fjárfestingarbanka, segir þróun Bank Lviv hafa gengið mjög vel og bankinn hafi vaxið umfram áætlanir. „Bank Lviv hefur notið góðs af miklum framförum og hagvexti í Úkraínu og ég býst við því að hann fái aukið samkeppnisforskot nú þegar er þrengra er um vik á úkraínskum fjármagnsmarkaði en áður," segir Margeir um framtíðarhorfur í rekstri bankans.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×