Viðskipti erlent

Mesta fall í sjö ár í Bandaríkjunum

Skellurinn sem varð á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag í kjölfar mikilla sviptinga í þarlendum fjármálageira er sá mesti síðan í hryðjuverkaárásunum 11. september fyrir sjö árum. Samkvæmt útreikningum Bloomberg-fréttastofunnar gufuðu heilir 600 milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði 54 þúsund milljarðar króna, upp af markaðsverðmæti 500 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna. Þar af fór 61 prósent af gengi bandaríska tryggingarisanum AIG og 27 prósent af fjármálafyrirtækinu Washington Mutual. Þá lækkaði verð á hráolíu vegna ótta fjárfesta af því að auknar líkur séu nú á því en áður að samdráttarskeið vofi yfir Bandaríkjunum. Þá féll gengi fjármálafyrirtækja talsvert, ekki síst í Lehman Brothers en þar hrundi um 94 prósent í dag eftir að viðræður um kaup á honum fóru út um þúfur í gær. Í morgun óskuðu forsvarsmenn hans svo eftir greiðslustöðvun. Aðrir stórir bankar fóru ekki varhluta af ólgusjónum. Þannig féll gengi Citigroup um fimmtán prósent, Bank of America, sem ákvað að kaupa Merrill Lynch í dag, um 21 prósent, auk þess sem kreditkortarisinn American Express féll um 8,9 prósent. Bloomberg hefur eftir sérfræðingum að skortsala gæti hafa átt sök á hluta af niðursveiflunni í dag og megi reikna með að bandaríska Fjármálaeftirlitið sníði slíkum viðskiptum þrengri stakk á næstunni, jafnvel í vikunni. Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 4,42 prósent og Nasdaq-vísitalan um 3,6 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×