Innlent

Óvíst hvort Icelandair heimili farsímanotkun

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Mynd/ ÓKÁ
Ekki er víst að flugfélög sem starfa í ríkjum Evrópusambandsins samþykki notkun almennings á farsímum í flugvélum, þrátt fyrir að Evrópusambandið sé búið að heimila slíkt.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir þó að menn séu með þessi mál í stöðugri skoðun. "Það er búið að rannsaka þetta töluvert mikið og menn hafa aldrei fundið neina hættu af þessu," segir Guðjón í samtali við Vísi.

Guðjón tekur þó fram að þrátt fyrir að ekki sé nein hætta af notkun farsíma í flugi, að þá þurfi að líta til fleiri þátta. "Það er til dæmis tæknin. Hvernig ætlarðu að ná góðu farsímasambandi yfir úthafi í 37 þúsund feta hæð," segir Guðjón. Hann bendir einnig á að menn séu að velta fyrir sér hver ætti að greiða fyrir þessa þjónustu. Stærsta spurningin sé síðan kannski hvort að neytendur vilji þessa þjónustu. "Eða vilja menn kannski bara fá frið í flugvélum," segir Guðjón.

Guðjón segir að Icelandair fylgist með breytingum á þessu sviði á alþjóðavettvangi. Hins vegar hafi Icelandair engar forsendur til að vera í fararbroddi varðandi þetta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×