Innlent

Húsfyllir á fyrirlestri Gores í Háskólabíói

Al Gore, Nóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, heldur sem stendur erindi í fullu Háskólabíói um loftlagsmál. Fyrirlesturinn hófst um hálfníu í morgun og var fjölmiðlum heimilað að taka myndir við upphaf fundarins. Hins vegar var þeim vísað út þegar Gore hóf mál sitt og fór yfir þá vá sem hann telur mannkyni stafa af loftlagsbreytingum.

Áður en Gore steig í pontu flutti Lárus Welding, forstjóri Glitnis, stutt ávarp, en Gore er hingað kominn á vegum forseta Íslands og er fyrirlesturinn samstarf Glitnis og Háskóla Íslands.

Enn fremur flutti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, inngangsorð að fyrirlestri Gores og lýsti mannkostum hans. Sagði forsetinn að Gore væri meðal merkustu Bandaríkjamanna samtímans og einn af fyrstu leiðtogum heimsins á 21. öldinni. Hann sýndi hvað hægt væri að gera með skýrri sýn og festu. Lauk hann orðum sínum á því að lýsa Gore sem frábærri mannveru en Ólafur Ragnar og Gore hafa þekkst í allnokkurn tíma.

„Ég er Al Gore og var næsti forseti Bandaríkjanna“
Ólafur Ragnar Grímsson fór fögrum orðum um vin sinn, Al Gore.MYND/Stöð 2

Gore var tekið með dynjandi lófaklappi þegar hann gekk á sviðið og byrjaði á því að þakka fyrir sig á íslensku. Þá fór hann nokkrum orðum um hátíðarkvöldverðinn á Bessastöðum í gær og sagði Ólaf Ragnar Grímsson eina forsetann í heiminum sem hefði skipulagt kvöld með átta fyrirlestrum um hnattræna hlýnun. Vöktu þau ummæli nokkra kátínu. Þá sagði hann að honum þætti mikið koma til framlags Íslendinga í rannsóknum og verkfræði tengdri loftlagsbreytingunum.

Enn fremur sagði hann hina frægu setningu sína: „Ég er Al Gore og var næsti forseti Bandaríkjanna." Þegar salurinn hló að því sagði Gore í léttum tón: „Mér finnst þetta ekkert fyndið."

Sem fyrr segir var fjölmenni í stóra sal Háskólabíós. Meðal þeirra sem hlýða á erindi Gores eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir. Þá var Ólafur F. Magnússon borgarstjóri á fyrirlestrinum og aðstoðarkona hans, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×