Viðskipti innlent

Almar hættir hjá Sterling og Taleghani tekur við

Reza Taleghani, verðandi forstjóri Sterling Airlines.
Reza Taleghani, verðandi forstjóri Sterling Airlines.

Stjórn Sterling Airlines A/S hefur ráðið Reza Taleghani í stöðu forstjóra félagsins en hann tekur við af Almari Erni Hilmarssyni sem stýrt hefur félaginu í tæp þrjú ár. Síðustu 10 ár hefur Reza starfað hjá JPMorgan í New York og London þar sem hann hefur unnið með mörgum helstu flugfélögum og félögum í flugrekstri víða um heim.

Sterling Airlines er í eigu Northern Travel Holding en hluthafar þar á bæ eru Fons, FL Group og Sund.  

„Það er einstaklega ánægjulegt að fá Reza til liðs við Sterling en hann mun leiða félagið til enn frekari vaxtar," segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Sterling Airlines í fréttatilkynningu. „Reza býr yfir umfangsmikilli reynslu og þekkingu á flugiðnaðinum sem mun nýtast félaginu vel. Sterling Airlines er komið vel á veg enda er byggt á gömlum grunni félagsins innan Skandinavíu. Reza er góð viðbót í þann öfluga hóp starfsfólks sem fyrir er hjá félaginu og styrkir koma hans trú mína á farsæla framtíð þess enn frekar." sagði Þorsteinn Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Sterling Airlines.

Í tilkynningunni segir að Reza hafi umfangsmikla reynslu innan flugiðnaðarins. Hann hefur unnið að stefnumótunar- og fjármögnunarverkefnum margra stærstu flugfélaga heims, skráningu þeirra á markað, ásamt öðrum verkefnum. Hann er með AB. gráður í History and Organizational Behavior and Management frá Brown University. Reza útskrifaðist með lögfræðigráðu frá Villanova University School of Law og öðlaðist MBA gráðu frá Villanova School of Business.

„Sterling Airlines er félag með langa sögu og öflugan hóp starfsmanna sem leggja metnað sinn í að þjóna viðskiptavinum félagsins í Scandinavíu dyggilega. Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til að leiða félagið á næstu stig vaxtar þess og vinna með þessu hæfileikaríka starfsfólki." segir Reza Taleghani, verðandi forstjóri Sterling Airlines

Þá kemur fram að Reza og fjölskylda hans munu flytja til Kaupmannahafnar og mun hann formlega hefja störf innan skamms eftir tímabundna yfirfærslu verkefna hjá JPMorgan. „Samhliða þessu mun Almar Örn Hilmarsson, fráfarandi forstjóri, láta af störfum en hann hefur leitt vel heppnaðan samruna Maersk Air og Sterling Airlines. Reza og Almar munu vinna náið saman næstu vikur til að tryggja farsæl forstjóraskipti hjá félaginu."

Almar segir það hafa verið forréttindi að starfa fyrir Sterling og hafa fengið tækifæri til að „leiða félagið í gegnum mikla umbreytingatíma. Ég hef tekið þátt í að leiða saman tvö stór félög og unnið að því að tryggja rekstrarlegan stöðugleika þeirra. Ég skil við félagið í fullkominni sátt og treysti Reza fyllilega til að leiða félagið til frekari vaxtar" sagði Almar Örn Hilmarsson, fráfarandi forstjóri Sterling Airlines.

Floti Sterling Airlines samanstendur af 29 nýtískulegum Boeing 737 flugvélum sem fljúga á yfir 100 leiðum. Hjá félaginu eru um 1200 starfsmenn sem allir leggja áherslu á að veita viðskiptavinum áreiðanlega og sveigjanlega þjónustu á sanngjörnu verði. Frekari upplýsingar um Sterling Airlines og áfangastaði félagsins er hægt að nálgast á www.sterling.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×