Viðskipti erlent

Norska ríkisstjórnin lætur af andstöðu gegn sölu SAS

Líkurnar á að SAS flugfélagið verði selt þýska flugfélaginu Lufthansa hafa aukist að mun eftir að norska ríkisstjórnin virðist hafa látið af andstöðu sinni gegn sölunni.

Í frétt um málið í sænska blaðinu Dagens Industri kemur fram að fyrir helgi var norska stjórnin mótfallin sölunni. Við nánari skoðun hafi komið fram að SAS getur varla lifað sem sjálfstætt flugfélag mikið lengur. Því hafi norska stjórnin nú opnað fyrir söluna á SAS.

Orðrómur um áhuga Lufthansa á að kaupa SAS hefur lengi verið til staðar. Nú virðist þetta ætla að verða að veruleika.

Ríkisstjórnir Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur eru meirahlutaeigendur í SAS og því ekki hægt að selja félagið án þeirra vilja.

Greinendur segja að Lufthansa muni bjóða 75 skr. á hlutinn í SAS. Samkvæmt því er markaðsvirði félagsins tæplega 170 milljarðar kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×