Viðskipti erlent

Nýr forstjóri Keops segir að kassinn sé ekki tómur

Christian Meldgaard nýr forstjóri Keops Development í Danmörku segir að kassinn hjá þeim sé ekki tómur. Orð þessi lætur hann falla í viðtali við Börsen eftir að ljóst er orðið að Keops þarf að fresta opnun risastórrar verslunarmiðstöðvar í Hróarskeldu um óákveðinn tíma.

Eins og kunnugt er af fréttum neyddist Landic Property til að taka Keops til baka eftir að hafa selt það fjárfestingarfélagi Steen Gudes nýlega. Upp komu deilur um kaupin sem enduðu á þennan hátt. Stoðir eru stærsti hluthafinn í Landic Property.

Fyrr í morgun greindi Börsen frá því að opnun verslunarmiðstöðvarinnar Ro´s Torv í Hróarskeldu myndi ekki verða þann 3. október n.k. eins og áformað var. Ástæðan er að byggingu hennar er ekki lokið og óvíst hvenær það verður. Keops ber ábyrgð á verklokunum við miðstöðina.

Það sem flækir málið svo ennfrekar er að Ro´s Torv hefur tvisvar skipt um eigendur síðan Keops hóf að byggja hana. Fyrst keypti fasteignafélagið Essex það af Keops og síðan seldi Essex miðstöðina til Dades.

Christian Meldgaard segir í samtali við Börsen að hann vinni nú að því að taka til í bókhaldi félagsins og fara yfir verkefnastöðina. Hann segir að Keops eigi handbært fé og kassinn sé ekki tómur.

Keops hefur, eins og flest önnur fasteignafélög í Danmörku, lent í vandamálum vegna erfiðrar stöðu á danska fasteignamarkaðinum. Fasteignaverð hefur lækkað töluvert og á sama tíma halda lánastofnanir að sér höndunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×