Viðskipti innlent

Síðustu gjaldeyrishöft stóðu í sextíu ár

Jónas Haralz
Jónas Haralz

Gjaldeyrishöft og skilaskylda á erlendum gjaldeyri voru tekin upp í síðustu heimskreppu sem tímabundin ráðstöfun til varnar krónunni og gjaldeyrisstöðu Landsbankans, sem þá var seðlabanki landsins. Höftin voru þó ekki að fullu afnumin fyrr en 60 árum síðar.

Þessar aðgerðir vekja ótta um að þetta sé aðeins upphafið að frekari reglum um fjármagnsflutninga og að settar verði frekari reglur um gjaldeyrisflutninga til og frá landinu," segir Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Jónas Haralz, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans segir að fyrstu gjaldeyrishöftin hafi verið sett 1931 til þess að vernda gjaldeyrisforða Landsbankans. „Haustið 1931 hafði Jón Árnason bankastjóri miklar áhyggjufur af því að bankinn myndi ekki eiga gjaldeyri til að standa skil á erlendum lánum, og á grundvelli laga frá 1922 var bankanum veitt heimild til að skammta gjaldeyri og höft sett á innflutning. Þannig að þá var upptaka haftanna ekki einu sinni borin undir Alþingi. Nú fær þingið þó að taka málið fyrir."

Guðmundur segir að leiðandi stjórnmálamenn hafi litið svo á að krónan væri heilög, og það hafi ekki hvarflað að mönnum að hverfa frá fastgengisstefnunni. „Á fjórða áratugnum var því byggt upp víðtækt haftakerfi til þess að verja gengi krónunnar. Útflytjendur voru skyldaðir til að skila inn öllum gjaldeyri og reglur settar um innflutning á „óþarfa" varningi. Leifar þessa regluverks voru ekki hreinsaðar út fyrr en 1995, meira en 60 árum eftir að það er innleitt."

Þessar reglur voru í fyrstu hugsaðar sem tímabundnar ráðstafanir, en árið 1934 gerði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar þær að hluta efnahagsstefnunnar. Jónas segir að stjórnmálamenn hafi ekki gert sér ljóst hvar sú braut endaði sem þeir lögðu upp á. „Gengi krónunnar var haldið of háu, og það þurfti stöðugt að ganga lengra og lengra og herða höftin. Á sama tíma var taprekstri atvinnuveganna mætt með lánveitingum. Landsbankinn hélt uppi Kveldúlfi, Sambandinu og togaraútgerðinni." Þó hver aðgerð hafi átt að mæta brýnni þörf hafi þessi efnahagsstjórn mjög fljótt skapað óheilbrigt efnahagsástand.

Jónas óttast þó ekki að aðgerðirnar nú séu upphaf að nýju haftaskeiði í líkingu við það sem hófst 1931. „Það er von til þess að þetta verði í raun skammtímaráðstöfun, því við vitum betur nú, og hugsunarhátturinn er allt annar. Þá höfðu Íslendingar ekki heldur í nein hús að leita, þá var enginn Alþjóðagjaldeyrissjóður og við vorum alfarið komin upp á einn banka í London, Hambrosbanka. Að vísu höfðum við ekki gert neitt af okkur þá, og það var borið mikið traust til Íslendinga erlendis." -msh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×