Viðskipti innlent

Jákvætt að ríkið geti tekið lán við erfiðar markaðsaðstæður

Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. MYND/Anton

Greiningardeild Kaupþings segir mjög jákvætt að ríkið geti sýnt fram á að það geti tekið lán við jafn erfiðar markaðsaðstæður og raun ber vitni. Í hálffimmfréttum greiningardeildarinnar er fjallað um þá tilkynningu Geirs H. Haarde forsætisráðherra að ríkið hafi tekið um það bil 30 milljarða króna lán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og er hann nú samtals 300 milljarðar eða um fjórðungur af vergri landsframleiðslu.

„Ef teknar eru með í reikninginn mögulegar lánalínur Seðlabankans við erlenda seðlabanka, sem eru 1.500 milljónir evra samtals, er gjaldeyrisvaraforðinn því tæplega 500 milljarðar króna eða um 40% af VLF. Fram kom í ræðu forsætisráðherra að lánið sé á töluvert hagstæðari kjörum en áður hafa boðist og langt undir því álagi sem skuldatryggingarálag á ríkissjóð gefur til kynna að sé í boði. Skuldatryggingarálag ríkissjóðs er sem stendur 256 punktar ofan á Libor-vexti. Upphæðin nú er í takt við fyrri ummæli forsætisráðherra sem gáfu til kynna að lántökuheimild til eflingar gjaldeyrisvaraforðans yrði nýtt í smáum skömmtum," segir greiningardeildin.

370 milljarða heimild eftir

Greiningardeildin segir að ríkisstjórnin hafi nú ráðstafað um 130 milljörðum af þeirri 500 milljarða króna lántökumheimild sem fékkst á Alþingi í vor. Því standa eftir um 370 milljarðar af umræddri heimild.

Í hálffimmfréttunum er bent á að gengi krónunnar hafi styrkst eftir tilkynningu forsætisráðherra, mest um 1,2 prósent, en styrkingin hafi við lokun gjaldeyrismarkaða verið 0,6 prósent. „Lántaka upp á 30 milljarða króna hefur væntanlega ekki gert útslagið í styrkingu dagsins og má ætla að krónan hafi fyrst og fremst styrkst vegna jákvæðrar þróunar á erlendum hlutabréfamörkuðum sem hafa tekið vel miklum lækkunum á olíuverði síðustu daga. Hins vegar er mjög jákvætt að ríkið geti sýnt fram á að það geti tekið lán við jafn erfiðar markaðsaðstæður og raun ber vitni," segir greiningardeild Kaupþings.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×