Viðskipti innlent

Íslendingar aldrei verið svartsýnni samkvæmt væntingavísitölu

Íslenskir neytendur hafa ekki verið svartsýnni samkvæmt Væntingavísitölu Gallup frá því að mælingar vístölunnar hófust árið 2001.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar kemur fram að vísitalan mælist nú 23,2 stig sem er langlægsta gildi vísitölunnar frá upphafi. Til samanburðar var vísitalan 59, 2 stig í síðasta mánuði og 116 stig á sama tíma fyrir ári síðan.

Hæst fór Væntingavísitalan í maí 2007 þegar hún var 154,9 stig. Þegar væntingavísitalan mælist undir 100 stigum eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir á stöðu og horfur í efnahagslífinu.

Vísitalan fór undir 100 stig í mars á þessu ári og hefur haldið sig undir 100 stigum síðan þá. Vístalan mælir mat neytenda á núverandi aðstæðum í efnahags- og atvinnumálum og væntingum til ástandsins að sex mánuðum liðnum.

Engan þarf að undra niðurstöðuna í ljósi þess að könnunin er framkvæmd á sama tíma og fréttir af hópuppsögnum hafa verið tíðar og kreppu- og svartsýnistal í algleymingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×