Skoðun

Orkunýting og atvinnusköpun

Grétar Mar Jónsson skrifar

Við Íslendingar framleiðum raforku með vatni, en ekki kolum eða olíu og höfum þar með sérstöðu á því sviði. Í ljósi þess þurfum við að fá svör við því frá ríkisstjórn landsins, hvort fylgt verði eftir til framtíðar undanþágu okkur til handa, varðandi heildarmagn losunar útblásturs. Það skiptir verulegu máli til framtíðar litið hvort við munum fá að njóta þeirrar hinnar sömu sérstöðu okkar.

Enn sem komið er, getum við framleitt meiri orku en til staðar er í dag og til dæmis erum við að framleiða 200 wött af 2000 wöttum mögulegum á Suðurnesjum að talið er í formi jarðhita. Við eigum í komandi framtíð að nýta okkur ýmsa aðra virkjanakosti sem mögulegir eru til viðbótar þeim sem við höfum nú þegar nýtt svo sem vindaflið líkt og aðrar þjóðir hafa gert.

Þróunarvinnu þarf að finna stað og kosta til fjármagni í því efni, þannig að við getum á hverjum tíma verið í stakk búin til þess að koma af stað nýjum verkefnum.

Mat á heildarraforkuþörf þarf að vera til staðar þar sem magn orku til álvera annars vegar og almenningsþjónustu hins vegar, þarf að vera uppi á borðinu með nauðsynlegar framtíðaráætlanir meðferðis. Samhliða því þarf að skoða virkjanakosti með tilliti til kostnaðar við orkuflutninga. Þar þarf þjónusta við almenning að vera í lagi og sveitabýli í uppsveitum Árnes- og Rangárþings eiga ekki að þurfa að kvarta yfir skorti á þriggja fasa rafmagni sér til handa.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar eru því miður ósamstiga í þessum málum á tímum sem síst skyldi, þegar, hvoru tveggja þarf, að halda sérstöðu Íslands fram á alþjóðavettvangi, og halda fram á veg við atvinnusköpun innanlands.

Það er okkur mikil nauðsyn að halda áfram að nota og nýta auðlindir okkar til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir með atvinnuuppbyggingu þar að lútandi.

Það er forsenda þess að halda uppi velferð í landinu.

Höfundur er þingmaður Frjálslynda flokksins i Suðurkjördæmi.








Skoðun

Sjá meira


×