Viðskipti innlent

Verslunum lokað vegna samdráttar

Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri.
Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri.

HP Farsímalagerinn ehf. sem rekur verslanir Hans Petersen og Farsímalagersins hefur lokað eða sameinað fjórum af verslunum sínum undanfarnar vikur.

„Í kjölfar mikils samdráttar í sölu, það sem af er árinu, hefur félagið brugðist við með hagræðingu í rekstrinum," segir í tilkynningu frá Kjartani Erni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann segir að samfara lokunum verslana hefur starfsfólki fækkað en að áfram verður leitað leiða til að ná jafnvægi í rekstrinum.

Verslun Hans Petersen í Smáralind, sem var inní Hagkaupum, hefur verið lokað og móttaka fyrir framköllun flutt í verslun Farsímalagersins sem er við hliðina á Bæjarins Bestu og bakarí Jóa Fel í Smáralindinni. Samfara þessari breytingu hefur Farsímalagerinn í Smáralind hafið sölu á sérvöldu vöruúrvali frá Hans Petersen eins og Lomography myndavélum o.fl.

Verslun Farsímalagersins á Laugavegi 178 hefur verið flutt inní verslun Hans Petersen í sama húsnæði. Þá hefur verslun Farsímalagersins í Miðhrauni 14 í Garðabæ verið lokað.

Aðrar verslanir Farsímalagersins eru í Kringlunni, Smáralind, Laugavegi 178, Bankastræti og á netinu.

Verslun Hans Petersen í Firðinum í Hafnarfirði hefur verið lokað og móttaka fyrir framköllun þar með talið ósóttar vinnslur hefur verið flutt í Farsímalagerinn Smáralind.

Aðrar verslanir Hans Petersen eru í Kringlunni, Laugavegi 178 og Bankastræti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×