Viðskipti innlent

Hafa ekki fengið gjaldeyri í 10 daga

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þorskinum landað.
Þorskinum landað. Markaðurinn/JSE
Innan sjávarútvegsins hafa fyrirtæki fundað um þá stöðu sem upp er komin vegna þess að gjaldeyrir skilar sér ekki til landsins.

Samkvæmt heimildum Markaðarins standa þó enn vonir til þess að úr rætist á næstu dögum og greiðslur taki að skila sér milli landa. Öðrum kosti sé líklegt að leitað verði annarra leiða, svo sem með stofnun reikninga í erlendum bönkum sem greiðslur geti farið í gegn um.

„Það er allt stopp og menn horfa bara í gaupnir sér. Við höfum ekki fengið gjaldeyri í 10 daga núna," segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar.

Í Vestmannaeyjum komst þó í gegn smágreiðsla. „Það duttu hér óvænt inn 20 milljón japönsk jen okkur til undrunar og ánægju," segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Þá upphæð segir hann fara beint í að borga af erlendum lánum sem séu að gjaldfalla á fyrirtækið. „Það skila sér hins vegar ekki allar greiðslur. Sumar vitum við ekkert hvar eru."

Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar Fiskaness í Grindavík, segist ekki hafa fengið peninga til landsins síðan í síðustu viku, en þó sé vitað um „töluverðar upphæðir" sem sendar hafi verið af stað.

„Við erum bara að rekja þetta og koma á réttan stað í Seðlabankanum," segir hann og vonar að styttist í að úr rætist. „Þangað til verða menn bara að anda rólega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×