Innlent

Neitar að hafa svikið fyrrverandi ríkisendurskoðanda

Karl Georg Sigurbjörnsson við þingfestingu málsins í morgun.
Karl Georg Sigurbjörnsson við þingfestingu málsins í morgun. MYND/Jón Hákon

Karl Georg Sigurbjörnsson hæstaréttarlögmaður neitaði sök í efnahagsbrotamáli sem ríkilsögreglustjóri höfðaði á hendur honum nýverið. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í lok ágúst er Karli Georg gefið að sök að hafa „hafa hagnýtt sér ranga hugmynd" Sigurðar Þórðarsonar, þáverandi ríkisendurskoðanda, um hámarksverð sem hægt var að fá fyrir stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar.

Sigurður var einn af stoffjáreigendum í sparisjóðnum og seldi ásamt fjórum öðrum hluti sína til dótturfélags Baugs fyrir 50 milljónir árið 2006. Dótturfélag Baugs seldi síðan bréfin á 90 milljónir hvern skammt. Sigurður kærði Karl fyrir fjársvik með því að hafa svikið hann um mismunninn, 40 milljónir króna, en því hafnar Karl. Hann segist aðeins hafa annast þá samninga sem gerðir hefðu verið um kaupin. Verðið hafi verið það sama og allir aðrir sem seldu fengu.

„Ég hef aldrei samið við Sigurð Þórðarson um kaup á stofnfjárhlutum hans og fjögurra annarra manna, eins og ég er ákærður fyrir. Hlutverk mitt var það eitt að taka við stofnfjárbréfum úr hendi Sigurðar á skrifstofu hans í húsnæði Ríkisendurskoðunar og handskrifuðum miða með reikningsnúmerum til að greiða kaupverð bréfanna inn á," sagði Karl Georg í samtali við Fréttablaðið fyrir skemmstu.

Við þingfestinguna í dag sagði Karl Georg enn fremur að hann hefði ekki svikið Sigurð og Sigurður vissi það. Fram hefur komið að Karl Georg hafi kært Sigurð fyrir rangar sakargiftir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×