Viðskipti erlent

Druslurnar vinsælar

Toyota Corolla er vinsæll meðal íslenskra þjófa en rétt skríður á topp 10 í Bandaríkjunum.
Toyota Corolla er vinsæll meðal íslenskra þjófa en rétt skríður á topp 10 í Bandaríkjunum.

Eflaust eru margir sem halda að minni líkur séu á stuldi á eldri bílum, en svo er ekki í Bandaríkjunum. Honda Civic árgerð 1995 er á toppnum yfir vinsælustu bíla meðal þjófa árið 2007 og fylgir Honda Accord árgerð 1991 í kjölfarið.

Í skýrslu Bandarísku tryggingastofnunarinnar segir að helstu ástæður þess að eldri bílar eru vinsælir sé vegna þess hve auðvelt er að nota þá í varahluti. Viðmælandi vefrits Forbes segir bíla gjarnan bútaða niður og seldir sem varahlutir í aðra bíla. Margir eldri bílar séu gullmolar fyrir þjófa þar sem íhlutir, svo sem hljómflutningstæki og tölvur, loftpúðar séu verðmætir á svörtum markaði. Neðanjarðarhagkerfi hafi í raun skapast með varahluti úr eldri bifreiðum sem geri eldri bíla eftirsóknarverða til stuldar.

Stuldur á bifreiðum dróst saman í Bandaríkjunum um 8,9 prósent árið 2007 frá fyrra ári.Eitthvað er smekkur íslenskra þjófa annar en bandarískra, því Toyota Corrolla er vinsælasti bíllinn meðal íslenskra þjófa. Alls voru 265 ökutæki eftirlýst stolin á Íslandi árið 2007 samkvæmt málaskrá lögreglunnar.

Af tólf mest stolnu ökutækjum ársins eru sex tegundir: Toyota, Nissan, Suburu, Volkswagen, Mitsubishi og Citroen.

-bþa








Fleiri fréttir

Sjá meira


×