Viðskipti innlent

Gott að ekki komi til uppsagna með samruna

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir sérstaklega ánægjulegt að ekki komi til uppsagna hjá SPRON og Kaupþingi í tengslum við samruna bankanna sem kynntur var í gær. Hann segist ekki eiga von á frekari samþjöppun á bankamarkaði.

„Í rauninni er ánægjulegt að íslensku fjármálafyrirtækin leiti hagræðingar og styrki stoðir sínar. Það reynir verulega á þær um þessar mundir því það eru erfiðleikar á erlendum lánsfjármörkuðum eftir gríðarlegan uppgang," segir Björgvin. Þetta sé leið tveggja öflugra banka til þess að styrkja stoðirnar.

Hann segir sér sérstaklega ánægjulegt að ekki komi til uppsagna hjá bönkunum tveimur og að þeir hyggist halda vörumerkjunum tveimur áfram. „Útibúanetið verður ekki veikara og það dregur ekki úr samkeppni í viðskiptabankaþjónustu," segir Björgvin. Hann telur að samruninn verði til að styrkja stöðu íslenska fjármálakerfisins.

Um samþjöppunina á markaði segir Björgvin að auðvitað séu mörk út frá samkeppnissjónarmiðum hvað það varðar en það sé Samkeppniseftirlitsins að skoða það hvort samruninn raski samkeppni.

Aðspurður hvort hann telji að von sé á frekari samþjöppun á bankamarkaði segist Björgvin ekki gera ráð fyrir því. „Það hafa eðlilega gengið sögusagnir um samruna en ég á ekki von á að það verði fleiri stórir samrunar. Þetta er stærsta hreyfingin sem maður hafði pata af," segir Björgvin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×