Viðskipti innlent

Rúmlega 400 gestir skráðir á Haustráðstefnu Skýrr

Liðlega 400 ráðstefnugestir hafa nú þegar skráð sig til þátttöku á hina árlegu Haustráðstefnu Skýrr sem haldin verður á föstudag, 12. september. Hefur aðsókn að ráðstefnunni aldrei verið svo mikil.

Yfirskrift ráðstefnunnar, sem haldin verður á Hilton Nordica-hótelinu, er fagleg þekkingarmiðlun. Í boði eru fimm mismunandi fyrirlestralínur þar sem verða fluttir tæplega fjörtíu fyrirlestrar af fimmtán erlendum og tuttugu íslenskum sérfræðingum.

 

Fyrirlestralínurnar fimm skiptast í Microsoft-viðskiptalausnir, Oracle-grunntækni, Oracle-viðskiptalausnir, viðskiptagreind og öryggislausnir. Tveir lykilræðumenn setja svip sinn á Haustráðstefnu Skýrr að þessu sinni, þeir Dr. Trausti Kristjánsson hjá Google og Marcus Murray hjá TrueSec.

Dr. Trausti flytur fyrirlesturinn Google og Wiki-veröldin. Hann er þróunarstjóri talgreiningar hjá Google og mun í fyrri lykilræðu Haustráðstefnu atvinnulífsins greina frá helstu verkefnum sínum hjá Google, segja frá óvenjulegu vinnuumhverfinu og skyggnast inn í framtíðina. Dr. Trausti starfaði áður hjá IBM og Microsoft. Hann er rafmagnsverkfræðingur frá HÍ og með doktorspróf í tölvunarfræði frá Kanada.

Fyrirlestur Marcus Murray ber yfirskriftina Live Hacking. Marcus er eini Svíinn sem ber titilinn Microsoft Security MVP, sem stendur fyrir Microsoft Valued Professional. Hann er vinsæll fyrirlesari á heimsvísu, sem hefur sérhæft sig í öryggislausnum fyrir Microsoft-umhverfið með áherslu á öryggisúttektir og varnir gegn árásum. Marcus mun sýna hvernig tölvuþrjótar ráðast á Microsoft Windows-umhverfi og brjótast inn á staðarnet viðkomandi fyrirtækis. Á ráðstefnunni verður í framhaldinu farið yfir hvað fyrirtæki þurfa að gera til að geta varist tölvuinnbrotum af þessu tagi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×