Innlent

Mun færri ættleiddir í fyrra en árin á undan

Umtalsvert færri einstaklingar voru ættleiddir hér á landi í fyrra miðað við árin á undan. Þeir voru 48 í fyrra en árin 2005 og 2006 voru um 75 ættleiddir. Tölur Hagstofunnar sýna enn fremur að stjúpættleiðingar hafi verið 27 en frumættleiðingar voru 21. Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni maka umsækjanda. Með hugtakinu frumættleiðing er um að ræða ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Bent er á að frumættleiðingum frá útlöndum hafi fækkað umtalsvert frá árinu 2005. Það ár voru frumættleiðingar frá útlöndum fleiri en nokkurt annað ár eða 41 talsins. 35 þessara barna komu frá Kína. Árið 2006 voru frumættleiðingar frá útlöndum 19 og 17 árið 2007. Bæði árin voru börn frá Kína 13 talsins. Á tímabilinu 1996-2007 hafa flest erlend frumættleidd börn komið frá Kína, eða 105 stúlkur og þrír drengir. Næstflest börn hafa komið frá Indlandi, 62 stúlkur og 34 drengir.

„Frumættleiðingar á Íslandi hafa undanfarinn áratug yfirleitt verið mun færri en frumættleiðingar frá útlöndum. Hér er þó undanskilið árið 2006 en það ár voru börn sem frumættleidd voru frá Íslandi jafnmörg og þau sem komu frá útlöndum. Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess að í allmörgum tilvikum höfðu börn sem ættleidd voru á Íslandi búið hjá kjörforeldrum sínum um nokkurra ára skeið áður en þau voru ættleidd," segir Hagstofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×