Viðskipti innlent

Vill aðstoð IMF til að lágmarka skaðann

Inn- og útflutningur er í uppnámi segir Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur. Hún vill hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hið fyrsta til að koma í veg fyrir að skaðinn verði meiri en hann er orðinn.

Edda Rós segir að almennt vantraust ríki á viðskiptum banka á milli, sérstaklega gagnvart Íslandi. Það geti haft alvarlegar afleiðingar á inn- og útflutning. „Til skemmri tíma litið getur þetta valdið því að fyrirtækin hreinlega lendi í einhvers konar þroti þrátt fyrir að þau séu vel rekin og hafi staðið í skilum með allt sitt.

En til lengri tíma þýðir þetta í raun að við gætum verið að missa markaði erlendis þar sem við erum búin að koma okkur fyrir, t.d. með hágæðafiskvörum, og gætum lent í þeirri stöðu í framhaldinu að vera að selja þá á lágverðsmarkaði, einhvers konar blokkfisk eða eitthvað slíkt, þar sem afhendingaröryggi skiptir minna máli. Við erum þá að færast mjög aftur í tímann," segir Edda Rós.

Hún telur afar mikilvægt að byggja upp traust að nýju til að koma í veg fyrir að skaðinn verði meiri en hann er nú þegar orðinn. „Það held ég að verði ekki gert nema með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vonandi einnig nágrannaríkja okkar. Svíþjóð, Noregur og reyndar Finnland líka hafa lent í fjármálakrpepu og unnið sig út úr þeim fljótt og vel. Ég held að aðkoma þessara aðila strax í dag gæti lágmarkað þann skaða sem enn er að gerast og það er afar mikilvægt að átta sig á því að þó að skaðinn sé þegar orðinn mikill þá getur hann enn orðið meiri," segir Edda Rós Karlsdóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×