Viðskipti innlent

Bæði innlán og útlán jukust í desember

Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið í desember námu útlán innlánsstofnana til innlendra aðila um 3.824,6 milljörðum kr. í lok desembermánaðar og innlán til innlendra aðila um 1.217 milljörðum kr.

Jukust innlán innlendra aðila um 57% frá desember 2006, en einnig vekur athygli hversu mikil aukning innlána erlendra aðila hefur verið á síðustu misserum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að í desember námu innlán erlendra aðila um 1.293 milljörðum kr. en til samanburðar námu þau 364 milljörðum kr. í desember 2006 og 52 milljörðum kr. 2005. Er þessi mikla aukning væntanlega að verulegu leyti til komin vegna mikils vaxtar netbankastarfsemi fyrir einstaklinga í Bretlandi og víðar.

Hér er þó vert að hafa í huga að undanfarin misseri hefur færst í vöxt að innlendir aðilar stofni eignarhaldsfélög erlendis í skattalegu skyni, sem að líkum eru í töluverðum viðskiptum við innlenda banka.

Útlán til innlendra fjármálafyrirtækja jukust um 42% frá desember 2006 og útlán til annarra fyrirtækja um 30,6%. Einnig jukust útlán til heimila á árinu töluvert, eða um 18,5% frá desember 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×