Viðskipti innlent

Neyðarlínan semur við Vodafone

Árni Pétur Jónsson forstjóri Vodafone, Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Landsbjargar, Dagný Halldórssdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Kristján L. Möller samgönguráðherra.
Árni Pétur Jónsson forstjóri Vodafone, Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Landsbjargar, Dagný Halldórssdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Kristján L. Möller samgönguráðherra.

Neyðarlínan hefur samið við Vodafone um að fyrirtækið veiti Neyðarlínunni heildarfjarskiptaþjónustu næstu þrjú árin. Samningur þess efnis var handsalaður á hálendi Íslands, samhliða því að samgönguráðherra opnaði fyrir GSM þjónustu Vodafone á Kili.

Dagný Halldórsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir samninginn við Vodafone tryggja bestu mögulegu þjónustu. "Okkar fjarskiptaþarfir eru margvíslegar og eftir ítarlega úttekt er það niðurstaðan, að hagsmunir okkar og þeirra sem nýta sér þjónustu Tetra kerfsins séu best tryggðir með þessum nýja samningi."

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, segir það mikla viðurkenningu að Neyðarlínan hafi valið að færa sín símaviðskipti til Vodafone. "Öryggismál eru okkur mjög hugleikin og því er það sérstakt ánægjuefni að Neyðarlínan skuli vera komin í viðskipti við okkur. Við höfum lagt ríka áherslu á áreiðanleika þjónustunnar og bæði tæknilegir mælikvarðar og mælingar á ánægju viðskiptavina sýna að við höfum náð góðum árangri."

Vodafone hefur á undanförnum mánuðum unnið að uppbyggingu GSM þjónustu á svæðum þar sem slík þjónusta hefur ekki áður verið í boði, m.a. á hálendi Íslands. Þannig hefur Vodafone tryggt viðskiptavinum sínum GSM samband víðar á landinu en aðrir. Þó skal tekið fram, að þótt viðskiptavinir Vodafone geti einir nýtt sér þjónustuna til almennra nota, þá geta allir GSM notendur hringt í neyðarnúmerið 112 og óskað eftir hjálp þar sem GSM samband er til staðar.

Neyðarlínan veitir almenningi alhliða neyðarþjónustu í neyðarnúmerinu 112, auk þess sem hún hefur annast rekstur stjórnstöðvar Securitas um árabil. Neyðarlínan annast rekstur Vakstövar Siglinga, sem áður var tilkynningarskyldan og fjarskiptastöðin í Gufunesi. Einnig annast Neyðarlínan rekstur öryggisfjarskiptakerfisins Tetra.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki sem veitir heildarþjónustu á sviði fjarskipta. Starfsmenn Vodafone eru um 380 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM þjónusta Vodafone nær til 99% landsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×