Viðskipti innlent

LSR tapar 30 milljörðum kr. beint vegna fjármálakreppunnar

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur ekki farið varhluta af fjármálakreppunni fremur en aðrir lífeyrissjóðir landsins. Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri telur að beint tap LSR vegna hruns bankanna sé rúmlega 30 milljarðar kr. eða um 10% af eignum sjóðsins.

„Þarna erum við að horfa á hlutabréf og víkjandi skuldabréf í bönkunum en hvað varðar eign okkar í skuldabréfum fyrirtækja viljum við bíða og sjá hvernig málin þróast áður en við gefum upp tölur um tapið," segir Haukur.

Tap LSR á fjármálakreppunni á Íslandi mun ekki hafa sjálfkrafa áhrif á lífeyrisjóðsgreiðslur til meðlima sjóðsins. „Réttindin eru lögbundin og þeim verður ekki breytt nema alþingi breyti lögunum," segir Haukur.

Réttindi meðlima LSR breytast því ekki sjálfkrafa í takt við breytingará eignum sjóðsins. Haukur bendir á að réttindin voru ekki aukin þegar vel gekk með fjárfestingar sjóðsins síðustu árin áður en fjármálakerfi landsins hrundi.

LSR hefur fjárfest mikið í erlendum hlutabréfum eða fyrir um 27% af heildinni. Nam upphæðin samkvæmt ársskýrslu síðasta árs rúmum 81 milljarði kr. Haukur segir að erfitt sé að meta tapið vegna lækkunar á erlendum hlutabréfavísitölum þar sem veikt gengi krónunnar hafi vegið þar upp á móti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×