Viðskipti innlent

Óska eftir að fundi hluthafa í Glitni verði flýtt

Fjármálaeftirlitið vék stjórn Glitnis frá í gærkvöldi og skipaði skilanefnd í hennar stað, sem stjórnar nú bankanum. Allur almennur rekstur bankans á að vera í eðlilegu horfi í dag þrátt fyrir þetta, segir í tilkynningu frá Glitni.

Í tilkynningu frá Þorsteini Má Baldvinssyni fráfarandi stjórnarformanni Glitnis segir að að stjórnendur Glitnis hafi bréflega óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið á mánudag, að hluthafafundi yrði flýtt til að fá samþykkta aukningu hlutafjár félagsins um 600 milljónir evra í samræmi við hlutafjárloforð ríkisins, en því hafi ekki verið svarað. Því hafi ekki getað orðið af innborgun hlutafjárins í gær.

Þorsteinn Már rifjar upp að stjórn bankans hafi á sínum tíma varað við alvarlegum afleiðingum þess að ríkið keypti 75 prósent hlutafjár í Glitni, í stað þess að veita bankanum fyrirgreiðslu. Afleiðingarnar séu nú komnar í ljós með lækkun lánshæfismats fjármálastofnana almennt, og ríkisins. Snemma í morgun barst sú tilkynning frá Kaupþingi, að bankinn hafi, að höfðu samráði við stjórnvöld, rætt við Fjármálaeftirlitið um aðkomu Kaupþings að uppstokkun Glitnis og að málið verði rætt nánar á næstu dögum. Þessi yfirlýsing gæti þýtt að Kaupþing yfirtaki innlenda starfssemi Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×