Viðskipti innlent

Kaupþing og SPRON sameinast

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.

Kaupþing og SPRON hafa ákveðið að sameinast eftir nokkurra vikna viðræður þar um. Samningaviðræður milli þeirra hófust í apríl á þessu ári en þá var gert ráð fyrir að niðurstöðu væri að vænta innan fjögurra vikna.

Mánuði síðar kom síðan tilkynning frá Kaupþingi um að ákveðið hefði verið að framlengja samningaviðræðurnar. Þá sagði að viðræður gengju vel og væri niðurstöðu þeirra að vænta eins skjótt og kostur væri.

Sameining félaganna er háð samþykki hluthafafundar SPRON, stjórnar Kaupþings, Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og lánveitenda félaganna.

Kaupverðið miðast við lokagengi SPRON í gær með 15 prósenta álagi sem er rétt tæplega 3,8. Markaðsvirði Spron í viðskiptunum er því rétt rúmir 19 milljarðar.

Hluthafar í SPRON fá greitt með bréfum í Kaupþingi og Existu. Endurgjaldið verður samsett með þeim hætti að 60 prósent þess verða í formi hluta í Exista hf. og 40 prósent í formi hluta í Kaupþingi.

Áætlað er að hluthafafundur í SPRON verði haldinn í byrjun ágúst. Sameinað félag mun taka við rekstri, eignum og skuldum, svo og réttindum og skyldum SPRON, þegar öll skilyrði samrunans hafa verið uppfyllt, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

 



Tilkynnt var um samrunann til Kauphallarinnar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×