Viðskipti innlent

Eftirvinna endurskoðuð en ekki gripið til uppsagana í Húsasmiðjunni

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.
Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.

Stjórnendur Húsasmiðjunnar hafa í ljósi afar erfiðra aðstæðna í íslensku efnahagslífi ákveðið að endurskoða samninga allra starfsmanna Húsasmiðjunnar, Blómavals, Ískraft og HGGuðjónssonar um eftirvinnu.

Framvegis munu starfsmenn Húsasmiðjunnar ekki vinna lengur en átta tíma vinnudag á virkum dögum. Ekki verður gripið til uppsagna starfsfólks um mánaðamótin og opnunartími verslana verður að svo stöddu óbreyttur.

Markmið þessara aðgerða er að ná fram hagræðingu í rekstri til að mæta minni eftirspurn en komast um leið hjá uppsögnum.

„Það þarf ekki að hafa mörg orð um það ástand sem upp hefur komið í íslensku efnahagslífi síðustu vikurnar og þá sérstaklega í starfsemi sem tengist byggingariðnaði og innflutningi. Því var nauðsynlegt að grípa til aðhaldsaðgerða. Það er erfitt að biðja starfsfólk að draga úr vinnuframlagi, en við reynum með þessu að fara mildustu leiðina sem fær var og forðast í lengstu lög að segja upp starfsfólki," segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, í tilkynningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×