Viðskipti erlent

Stýrivextir óbreyttir í Noregi eins og vænst var

Seðlabanki Noregs tilkynnti í dag að stýrivextir þar í landi haldist óbreyttir í 5,5% eins og allir greinendur höfðu spáð samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Greining Landsbankans fjallar um málið í Vegvísi sínum. Þar segir að verðbólga í Noregi hefur aukist töluvert síðustu sex mánuði og er undirliggjandi verðbólga nú hærri en 2,5% sem er verðbólgumarkmið bankans.

Seðlabankinn hefur þó gefið vísbendingar um hækkun stýrivaxta um 25 punkta á þessu ári til að stemma stigu við hækkandi launakostnað sem hefur verið að fóðra verðbólguna.

Norska hagkerfið hefur verið á fleygiferð en merki eru á lofti um að kólnun hagkerfisins sé á næsta leiti. Fasteignamarkaðurinn hefur verið að hægja á sér auk þess sem gert er ráð fyrir minni hagvexti á þessu ári. Að auki hefur hækkandi matvæla- og eldsneytisverð verið að kynda undir verðbólgunni víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×