Viðskipti innlent

Fjármálaráðherra: Hætt við lántöku í bili

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra. MYND/GVA
Hætt hefur verið við það í bili að íslenska ríkið taki 500 milljarða króna lán til að styrkja gjaldeyrisforða sinn. Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að það verði ekki gert fyrr en íslenska ríkið fái betri kjör á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum.

Frumvarp til laga um heimild til fjármálaráðherra að taka lán fyrir allt að 500 milljarða var samþykkt á Alþingi í maí í vor. Tilgangurinn var að styrkja gjaldeyrisvarasjóð landsmanna. Ekkert hefur bólað á láninu og í dag sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra í samtali við Stöð 2 að lántöku hefði verið frestað í bili vegna þess hversu slæm lánakjör væru á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Lánið yrði ekki tekið á þeim kjörum sem nú biðust. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu segir að hvert 0.1 prósent í vaxtamun muni kosta ríkissjóð 500 milljónir króna. Vaxtamunurinn er fljótur að hækka um hvert brot úr prósentu.

Þá kemur fram á Bloomberg vefmiðlinum að lántökukostnaður hafi hækkað rúmlega fjórfalt frá upphafi árs. Haft er eftir fjármálasérfræðingi hjá UBS í Lundúnum að þrátt fyrir slæm kjör á markaði nú telji hann að Íslendingar eigi að taka lán strax tll að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn því kjörin komi ekki tl með að batna á næsta hálfa ári, jafnvel versna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×