Viðskipti innlent

Icesave-innistæðueigendur fá endurgreitt í næsta mánuði

Tryggingasjóður innistæðueigenda í Bretlandi hyggst byrja að greiða innistæðueigendunum á Icesave-reikingum Landsbankans þar í landi fjármuni sína til baka eftir um tíu daga. Reiknað er með að flestir innistæðueigendur verði búnir að fá fé sitt til baka í lok nóvember.

Fram kemur á fréttavef breska blaðsins Telegraph að tryggingasjóðurinn hafi ákveðið að flýta fyrir endurgreiðslunni og verði fjármunir færðir inn á aðra bankareikninga innstæðueigenda Icesave.

Eins og kunnugt er ákváðu bresk stjórnvöld að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi þegar bankinn féll hér á landi og hafði það áhrif á um 300 þúsund innistæðueigendur hjá Icesave sem ekki gátu tekið fjármuni sína út. Íslensk og bresk stjórnvöld hafa svo deilt um það hversu mikla ábyrgð Íslendingar beri á Icesave-reikningunum og hafa tveir fundir verið haldnir þar sem sem samninganefndar hafa reynt að komast að samkomulagi.

Bresk stjórnvöld hafa þegar sagt að innistæðurnar í Icesave verði tryggðar að fullu en ekki greint frá því hvernig það verði gert fyrr en nú.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×