Erlent

Ekkert melamín í Nestlé vörum

Öll Nestlé þurrmjólk sem seld er á Íslandi er framleidd í Evrópu undir ströngustu skilyrðum og eftirliti Evrópusambandsins. Stórmarkaðir í Hong Kong hafa innkallað alla Nestle þurrmjólk sem framleidd er í Kína af ótta við að hún sé menguð. Nestlé hefur vísað þessum ásökunum á bug og bendir á að kínversk stjórnvöld hafi gefið út lista yfir tegundir sem kynnu að innihalda hið mengandi efni melamín. Nestlé vörur eru ekki á þeim lista.

Fyrirtækið hefur því skorað á dagblaðið í Hong Kong sem sagði fréttir af mengaðri Nestlé mjólk að upplýsa nánar um þær rannsóknir sem standa að baki fullyrðingunum.

Fjögur kínversk ungabörn hafa dáið og yfir sex þúsund veikst eftir að hafa drukkið þurrmjólk sem í var efnið melamín. Efnið veldur nýrnabilun hjá ungum börnum og var sett í mjólkina af framleiðendum til að draga úr kostnaði. Fjölmörg lönd hafa bannað innflutning á kínverskum mjólkurvörum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur jafnframt viðurkennd að vandamálið geti verið mun umfangsmeira en fyrst var talið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×