Viðskipti innlent

Glitnir eignast MEST

Glitnir er eigandi að Steypustöðinni Mest ehf., sem hefur tekið yfir rekstur steypustöðva og helluframleiðslu MEST ehf. í Hafnafirði, Reykjavík og á Selfossi. Þá mun hið nýstofnaða félag einnig taka yfir verslun með múrvörur MEST ehf.

Í tilkynningu sem MEST sendi frá sér í morgun segir að undanförnu hafi eigendur, stjórnendur og lánadrottnar unnið að endurskipulagningu rekstrar MEST ehf. með það að markmiði að tryggja áframhaldandi starfsemi sem og að tryggja hag starfsmanna fyrirtækisins.

Með þessum aðgerðum sé verið að tryggja áframhaldandi rekstur sem og atvinnu yfir 100 starfsmanna fyrirtækisins. Góður rekstrargrundvöllur sé fyrir steypustöð og hellusteypu og mun nýja félagið því byggja á sterkum grunni.

Glitnir var í hópi stærstu kröfuhafa MEST ehf.

Forstjóri Steypustöðvarinnar Mest ehf. er Hannes Sigurgeirsson. Hann hefur áralanga reynslu af slíkum rekstri og var m.a. um árabil forstjóri Steinsteypunnar og Steypustöðvarinnar. Stjórnarformaður félagsins er Jón Steingrímsson, viðskiptafræðingur og rekstrarráðgjafi.

Í tilkynningu MEST segir að framtíð annarra rekstrareininga fyrirtækisins sé í höndum eigenda MEST ehf. Stjórnarformaður þess félags er Pétur Guðmundsson.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×