Skömmu eftir fall Kaupþings fékk Fjármálaeftirlitið sömu ábendingu og Efnahagsbrotadeild fékk fyrir hálfum mánuði um milljarða millifærslur frá bankanum inn á erlenda bankareikninga.
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra skoðar nú millifærslur upp á samtals hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga en grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi fært vildarviðskiptavinum stórar fjárhæðir á silfurfati.
Efnahagsbrotadeild barst nafnlaus ábending þess efnis fyrir um hálfum mánuði og óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu um samninga sem voru á bak við umræddar millifærslur. Heimildir fréttastofu herma að Fjármálaeftirlitinu hafi borist sama ábending í október síðastliðnum.
Í samtali við fréttastofu vildi upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins ekki gefa það upp hvort að búið væri að rannsaka málið eða hvort það hefði yfir höfuð verið til rannsóknar. Almennt væru ekki gefnar upplýsingar um einstök mál, þ.e. hvort þau væru til skoðunar eða ekki. Fjármálaeftirlitið væri að rannsaka ýmis mál frá því í október í tengslum við þá atburði sem hafa átt sér stað á fjármálamörkuðum. Slík mál væru oft umfangsmikil og mikilvægt væri að vanda rannsóknir.