Viðskipti innlent

Ekki um neyðaraðstoð að ræða

Seðlabanki Íslands hefur tryggt sér aðgang að 1,5 milljarði evra með samningum við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Samningurinn eykur svigrúm Seðlabankans til að lána íslensku viðskiptabönkunum lán í evrum.

Um er að ræða þrjá aðskilda tvíhliða samninga við Seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þessir bankar eru allir utan við myntbandalag Evrópu en Seðlabanki Finnlands er í myntbandalaginu og kemur ekki að þessum samningum. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, segir ekki víst að Seðlabankinn þurfi að nýta þetta fé, en aðgangurinn er tryggður ef á þurfi að halda.

Fyrstu viðbrögð markaðarins við þessu hafa verið jákvæð. Davíð sagði að það væri of snemmt að fullyrða um hver áhrifin af aðgerðunum verði, dagurinn sé enn ungur og margt breytist á markaði, en fram að þessu hefði gengið styrkst um 4-5 prósent í morgun og skuldatryggingaálag á ríkið hefði minnkað á bilinu 60-100 punkta.

Samningarnir þrír eru upp á 1,5 milljarða evra eða 175 milljarða íslenskra króna, sem Davíð segir vera tæplega tvær Kárahnjúkavirkjanir. Hann segir þetta aðeins fyrsta skrefið af nokkrum til að styrkja fjármálakerfið en unnið sé að því að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ekkert sem bendir til að við þurfum að nota þessa peninga

Aðspurður um þær fullyrðingar danskra fjölmiðla að um neyðaraðstoð væri að ræða sagði Davíð að því færi fjarri. „Ég sannfærður um að danski seðlabankinn mundi sjálfur ekki orða það svo þó ég sé ekki að leggja honum orð í munn," sagði Davíð.

Hann benti á að í yfirlýsingum bankanna þriggja kæmi fram að vilji þeirra væri að styrkja svigrúm og viðbúnaðarmöguleika Seðlabankans en ekki væri með neinum hætti litið svo á að um neyðaraðstoð væri að ræða. „Það er alveg rétt að hafa í huga að það er á þessu augnabili ekkert sem bendir til þess í sjálfu sér að við munum nokkurn tíma nota þessa peninga," sagði Davíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×