Viðskipti erlent

Magasin du Nord er hvorki gjaldþrota né til sölu

Carsten Fensholt talsmaður Magasin du Nord segir að verslunin sé hvorki gjaldþrota né til sölu. Mikill orðrómur hefur verið um þetta í Kaupmannahöfn eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson sagði af sér sem stjórnarformaður Magasin og Illum í gær og vél jafnframt úr stjórninni.

Fjallað er um málið á vefsíðunni business.dk. Þar segir m.a. að orðrómur hafi verið um að Magasin hafi stöðvað kaup á nýjum vörum sem var einmitt ein af ástæðum þess að verslunarkeðjan Merlin var seld.

Carsten vísar þessum orðrómi á bug. Hann segir að eigendur Magasin hlakki til jólaverslunarinnar og séu á fullu við að kaupa inn vörur til hennar. "Við höfum þar að auki lagt fram pantanir fyrir vörur fyrir vorið og sumarið á næsta ári," segir Carsten. "Þetta gerum við yfirleitt í október þannig að allt er með eðlilegum hætti hjá okkur."

Hvað orðróminn um gjaldþrot varðar segir Carsten að hann sé sá ótrúverðugasti. "Það mátti kannski búast við slíku í framhaldi af Sterling og Merlin en þetta er algerlega úr lausu lofti gripið," segir Carsten. "Fyrirtækið hefur aldrei staðið betur."

Fram kemur í máli Carsten að á síðasta ári skilaði Magasin hagnaðí í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar. "Við erum algerlega óháðir íslenskum bönkum og félögum, eru algerlega fjármagnaðir af dönskum aðilum og erum sjálfstætt starfandi félag. Við erum hvorki á leið í gjaldþrot né til sölu," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×