Viðskipti innlent

FL Group tapaði 47,8 milljörðum kr. á fyrsta ársfjórðungi

Tap FL Group eftir skatta nam 47,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2008.

Stærstan hluta tapsins má rekja til 21,4 prósenta lækkunar á gengi hlutabréfa í Glitni (20,6 milljarða króna tap), lækkunar gengis í öðrum skráðum félögum (13,8 milljarða króna tap) og sölu á eftirstandandi hlutum í Commerzbank, Finnair og Aktiv Kapital (11,3 milljarða króna tap).

Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, segir í tilkynningu um uppgjörið að undir lok síðasta árs hafi verið kynntar aðgerðir til bregðast við óhagstæðu markaðsumhverfi og það sé ánægjulegt að tilkynna að félagið hafi þegar náð umtalsverðum árangri í þessum efnum á fyrsta ársfjórðungi 2008.

„Við höfum endurskipulagt eignasafn félagsins, lagt áherslu á að viðhalda öflugri fjárhagsstöðu félagsins, breytt skipulagi og hagrætt í rekstri félagsins. Markaðsáhætta félagsins hefur verið minnkuð með sölu skráðra eigna sem ekki falla að fjárfestingastefnu félagsins, við höfum viðhaldið góðri fjárhagslegri stöðu og við erum á réttri leið með að lækka rekstrarkostnað félagsins umtalsvert," segir Jón Sigurðsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×