Viðskipti innlent

Flest bendir til verulegrar kólnunar á fasteignamarkaði

Flestar vísbendingar benda nú í þá átt að veruleg kólnun hafi átt sér stað á innlendum fasteignamarkaði. Að öllum líkindum mun fasteignamarkaður kólna enn frekar með haustinu og vel fram á næsta ár.

 

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þegar litið er til mælinga Hagstofunnar um þróun íbúðaverðs á landinu öllu kemur í ljós að íbúðaverð hefur lækkað um 0,5% frá byrjun árs en tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs á landinu nemur 7,2% og hefur hægt mikið á árshækkun húsnæðisverðs undanfarna mánuði. Til samanburðar nam árshækkun húsnæðisverðs á landinu öllu var 16,2% í byrjun árs.

 

Umsvif á fasteignamarkaði hafa dregist verulega saman það sem af er ári. Frá upphafi maímánaðar til miðs júlí hafa verið gerðir að meðaltali 60 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á viku en á sama tímabili fyrir ári síðan var meðalfjöldi samninga á viku nærri fjórfalt meiri, eða 235 samningar.

 

Þá hefur veltan einnig dregist hratt saman en í júní nam veltan á fasteignamarkaði 9,5 milljörðum kr. samanborið við 26 milljarða kr. veltu í júní fyrir ári síðan. Loks hafa ný íbúðalán banka og sparisjóða dregist hratt saman en í júnímánuði voru þau 46 talsins og fækkaði um 30 frá fyrri mánuði.

 

Í júní fyrir ári síðan voru ný íbúðalán innlánastofnana 660 talsins og hefur þeim því fækkað um 93% á milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×